Yfirlýsing frá TKÍ
Stjórn TKÍ fagnar breyttu verklagi við afgreiðslu vegabréfsáritana til Bandaríkjanna og sem gerir Meisam Rafiei, og fólki sem er í sömu stöðu og hann með tvöfalt ríkisfang, kleift að ferðast á US Open á morgun. Eftir stendur þó að miklum fjölda fólks, íþróttafólks sem og annarra, er meinað að koma til þess lands án þess að hafa nokkuð til saka unnið.
TKÍ vill þakka framkvæmdastjóra ÍSÍ og forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands kærlega fyrir ómetanlega aðstoð við að lenda málinu farsællega, og einnig starfsmönnum utanríkisráðuneytisins á Íslandi og eins starfsmönnum bandaríska sendiráðsins hér á landi. Það fólk hefur lagt mikið á sig til að finna lausn á málinu og hefur sú vinna teygt anga sína víða um heim.
Einnig vill TKÍ þakka forseta bandaríska taekwondosambandsins sérstaklega fyrir að ganga í málið á sínum vettvangi, mitt í stærsta móti þess sambands, og hafa hann og bandaríska sambandið sýnt ótrúlega hjálpsemi í að koma Meisam á mótsstað og gengið ótrúlega langt í að taka honum fagnandi þegar þangað kemur.
TKÍ vill engu að síður ítreka andstöðu sína við ferðatakmarkanir af þessu tagi og mun, þrátt fyrir farsæla lausn á þessu tiltekna máli, halda uppi áeggjan sinni til ETU og WTF um að þau sambönd bregðist við þessari þróun af fullum þunga fyrir hönd þeirra íþróttamanna sem í dag er meinuð þátttaka í íþróttamótum á grundvelli tilskipunarinnar.
Stjórn TKÍ