Vegna Íslandsmóts í bardaga 2021.
Stjórn TKÍ barst kæra vegna Íslandsmótsins í bardaga 2021 í kjölfar þess að mótið var haldið. Bent var á að fá einu félagi voru fjölmargar ólöglegar skráningar iðkenda sem gengur í berhögg við reglugerð TKÍ um félagaskipti og keppnisleyfi og eins lög ÍSÍ um gjaldgengi keppenda á Íslandsmótum.
Stjórn TKÍ fundaði um kæruna undir lok síðustu viku, að undanskildum þeim stjórnarmönnum sem voru vanhæfir til að fjalla um málið vegna aðildar að því, og ákvað stjórnin að eina raunhæfa niðurstaðan væri að ógilda mótið í heild sinni, í ljósi þess um hve marga keppendur var að ræða og alvarleika málsins.
Mótið þann 9. nóvember er því ógilt í heild sinni, þ.e. engir Íslandsmeistarar eru krýndir á því móti, hvorki einstaklingar né félög.
Vegna alvarleika málsins mun stjórn TKÍ kanna til hlítar aðdraganda hinna ólögmætu skráninga, ákvörðun um að senda viðkomandi keppendur til keppni og aðra þætti sem hún telur máli skipta. Byggt á niðurstöðu þeirrar könnunar getur komið til þess að stjórn grípi til frekari aðgerða eða viðurlaga. Þetta er ekki léttvæg ákvörðun og stjórn hefur fullan skilning á því að hún getur verið þátttakendum áfall.
Engu að síður skiptir öllu máli að lögmæti og gjaldgengi keppenda á móti sem Íslandsmóti séu yfir allan vafa hafin og að allir geti treyst því að jafnræðis sé gætt á milli félaga.