Sagan á Íslandi
Taekwondo hefur verið stundað á Íslandi frá árinu 1974.
Í fystu var Taekwondo aðeins stundað á Keflavíkurvelli. 1974-1978 var félagið Toraki Taekwondo Club keyrt áfram af Ron Hartman. En þar æfðu bæði Ameríkanar og Íslendingar.
Fyrsta alíslenska félagið, Dreki, var stofnað af Master Steven Leo Hall í Hafnafirði árið 1987. 1990 var Kvondódeild ÍR stofnuð af Master Michael Jörgensen, Kolbeini Blandon og Ólafi William Hand. Sama ár varð Taekwondo aðili að Íþróttasambandi Íslands og þar með var Kvondonefnd Íslands stofnuð. 1991 byrjuðu Master Michael Jörgensen og Ólafur Björn Björnsson að kenna Taekwondo í Gallerí Sport.
Einherjar komu til sögunnar með Ægi Sverrissyni árið 1993 og Fjölnir var stofnaður árið á eftir undir umsjón Sigursteins Snorrasonar.
Taekwondofélag Ármanns var svo stofnað í janúar 1995 af Master Michael Jörgensen og Ólafi William Hand.
Í september 1998 stofnaði Sverrir Tryggvason Taekwondodeild HK og sama ár var Taekwondodeild Þórs á Akureyri stofnuð af Magnúsi Rönnlund, Sigurbirni Gunnarssyni og Ármanni P. Ágústssyni.
Árið 2000 stofnuðu þau Hulda Sólveig Jóhannsdóttir og Jón Ragnar Gunnarsson Taekwondodeild Bjarkar í Hafnafirði. Sama ár stofnuðu þeir Sigursteinn Snorrason og Normandy Del Rosario Taekwondodeild Keflavíkur.
Á þingi ÍSÍ þann 28. apríl 2002 var Taekwondosambands Íslands stofnað. Taekwondosambandið fékk skammstöfunina TKÍ. Með þessu varð íþróttin fullgild innan Íþróttasambands Íslands. Fyrsti stofnfundur sambandsins var haldinn 17. september 2002, en þá voru kosnir formaður, Snorri Hjaltason, og aðrir nefndarmenn. Á fundinum var ný táknmynd TKÍ, hönnuð af Erlingi Jónssyni, einnig samþykkt.
Taekwondofélagið Afturelding var stofnað 2002 af Sigursteini Snorrasyni og árið eftir stofnaði hann Taekwondofélag Selfoss.
Jón Ragnar Gunnarsson var kosinn formaður TKÍ árið 2004.
Árið 2005 stofnuðu þeir Hlynur Gissurason og Kjartan Sigurðsson Taekwondodeild Fram.
Yngsta Taekwondofélagið er Taekwondodeild KR, en það var stofnað 2006 af Sigursteini Snorrasyni.