Tvö Brons

By:

Leo Anthony Speight og Guðmundur Flóki Sigurjónsson á palli á enn einu alþjóðlega stiga mótinu .

Núna um helgina fór fram Solidarity Open G-1, sterkt alþjóðlegt stigamót í Olympísku Taekwondo sem gildir til stiga á heimslistanum. Á mótinu kepptu rúmlega 700 aðilar á háu getu stigi allt frá Olympíu, heims og evrópumeistara verðlaunahöfum til þeirra sem eru að byrja að færa sig inn á hæðsta stig í bardaga.Mótið fór fram í Frakklandi. Íslensku landsliðsmennirnir Leo Anthony Speight og Guðmundur Flóki Sigurjónsson kepptu á vegum Íslands á mótinu.

Strákarnir stóðu sig frábærlega undir stjórn Rich Fairhurst landsliðsþjálfara og enduðu mótið báðir á palli með brons eftir erfiða bardaga.

Leo Anthony keppti að venju í -68 flokki sem var fjölmennasti flokkur mótsins með 24 keppendur. Þar á meðal voru Olympíufarar og aðilar sem unnið hafa til verðlauna á stæðstu mótunum. 

Leo byrjaði á því að sitja hjá í R32. Í 16 manna úrslitum fór Leo svo á móti Olympíufara sem Leo sigraði örugglega 2-0. Í 8 manna úrslitum fór hann svo á móti Spánverja og sigraði hann einnig örugglega 2-0. Í undanúrslitum fór hann svo á móti keppanda sem vann seinustu Olympíuúrtökur í Asíu en tapaði því miður naumlega 0-2 og endaði því daginn með brons sem eru þriðju alþjóðlegu G verðlaunin á þessu ári.

Guðmundur Flóki keppti svo í -80 flokki fullorðinna þrátt fyrir að vera á seinasta ári í unglingaflokki. Að þessu sinni voru 9 keppendur í hans flokk þar á meðal afríkumeistari og bronsverðlaunahafi HM Junior. Flóki sat hjá í 16 manna úrslitum og fór beint inn í 8 manna úrslit þar sem hann vann sterkann keppanda frá þýskalandi sem var nýbúinn að vinna til verðlauna í sama flokki á Austrian Open helgina á undan. Flóki tapaði lotu eitt naumlega á einu stigi en vann svo tvær næstu lotur og endaði því á að vinna 2-1. Í undanúrslitum mætti  Flóki svo Afríkumeistarnum frá 2023 frá Marakó. Sá keppandi var númeri of stór fyrir okkar mann að þessu sinni og tapaði hann 0-2. Flóki endaði því daginn með brons annað mótið í röð í fullorðinsflokki sem er frábær árangur.