Tilnefningar í Mótanefnd

By:

TKÍ óskar eftir tilnefningum í Mótanefnd. Stjórnin óskar því eftir að hvert félag tilnefni aðila í nefndina með tölvupósti sem sendur skal á tki@tki.is fyrir föstudaginn 12. april. Stjórn TKÍ mun velja nefndarmenn úr innsendum tilnefningum og tilnefna formann nefndarinnar.

Hlutverk mótanefndar verður að skipuleggja og fá aðila til þess að halda mót á vegum TKÍ, ásamt því að styðja við mótshaldara. Þar með talin eru Bikarmótin þrjú, Íslandsmeistaramótin tvö og Reykjavík International Games, en einnig verður það hlutverk nefndarinnar að styðja við annað mótastarf á vegum aðildarfélaga eftir því sem unnt er.

Mótanefndin skal leita samþykkis stjórnar TKÍ varðandi fjárútlát, ef kemur til álitamála, og í stórum málum svo sem hvar, hvenær og af hverjum mót skuli haldin.

TKÍ mun óska eftir félögum til að hýsa mótin í júní hvert ár.

Fyrsta verk mótanefndar verður að styðja við Taekwondodeild Ármanns og Aftureldingar sem mun halda Bikarmót III, en það mót er rétt handan við hornið (27. – 28. apríl).

Undir mótanefnd mun einnig falla umsjón með að mótabúnaður sé í lagi ásamt endurnýjun hans í samráði við stjórn TKÍ.  Einnig ber mótanefnd að skipuleggja mönnun móta ásamt því félagi sem heldur mótið ásamt því að tryggja að uppsetning á bardagatré og flokkaskiptingar séu eftir alþjóðareglum WT.

Mótanefnd verður skipuð til tveggja ára í senn.  Ný mótanefnd tekur til starfa að loknu síðasta móts hvers vetrar.  Fráfarandi mótanefnd ber ábyrgð á að ný mótanefnd fái allan þann stuðning er þarf til þess að skiptingin gangi snurðulaust.