Meisam Rafiei í Frægðarhöll Taekwondo (Taekwondo Hall of Fame) í Las Vegas, þann 18. okt næstkomandi
Þann 18. október næstkomandi mun Meisam Rafiei, landsliðsþjálfari Íslands í taekwondo, hljóta inngöngu í Frægðarhöll Taekwondo (Taekwondo Hall of Fame) í Las Vegas. Árið 2009 hlutu feðgarnir Snorri Hjaltason og Sigursteinn Snorrason inngöngu í Frægðarhöllina fyrir framúrskarandi starf við uppbyggingu íþróttarinnar á Íslandi og nú bætist þriðji Íslendingurinn í hópinn.
Meisam Rafiei kom hingað til lands fyrir nokkrum árum frá Íran og hlaut íslenskan ríkisborgarrétt fyrir hálfu öðru ári síðan. Þrátt fyrir að vera einungis 27 ára gamall er hann margfaldur heimsmeistari, t.d. varð hann heimsmeistari unglinga árið 2002, og heimsmeistari hermanna 2006 og 2008. Meisam hefur verið landsliðsþjálfari Íslands undanfarin ár og undir hans stjórn hafa keppendur náð gríðarlega góðum árangri á erlendri grundu. Einnig hefur Meisam verið ötull við að þjálfa hjá ýmsum félögum á Íslandi og þannig eflt og styrkt starfið innan einstakra félaga.
Einungis örfáir aðilar hafa hlotið inngöngu í Frægðarhöllina en þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa unnið sérstaklega ötullega að framgangi íþróttarinnar á einn eða annan hátt og eru þeir fáir Evrópubúarnir sem hlotið hafa þennan mikla heiður. Það sem vekur jafnvel enn meiri athygli er að Meisam skuli fá inngöngu svona ungur að árum sem segir meira en mörg orð um hversu virtur hann er innan íþróttarinnar um allan heim og hversu mikill happafengur hann er fyrir taekwondo á Íslandi.
Íþróttahreyfingin á Íslandi má vera stolt af þessari viðurkenningu sem landsliðsþjálfarinn hlýtur og framtíð íþróttarinnar á Íslandi er svo sannarlega björt.