Dómarnámskeið í poomsae
Helgina 28. – 29. september síðastliðna kom Rahel Azad, 7. dan ásamt Ji Pyo Lim, einnig 7. dan og héldu þeir dómaranámskeið í poomsae. Báðir koma frá Svíþjóð og búa yfir áratugalangri reynslu af kennslu, dómgæslu og keppni á öllum stigum Taekwondo. Er þetta fyrsti hluti af verkefni dómaranefndar TKÍ þar sem stefnt er á endurskipulagningu starfsins, bæði fyrir dómara í bardaga og formi.
Á námskeiðið mættu meðal annars tveir 4. dan meistarar og einn 7. dan stórmeistari frá Íslandi. Einnig mættu nokkrir landsliðskeppendur og fengu allir góða punkta fyrir komandi keppnistímabil.
Námskeiðið sjálft samanstóð af bóklegri þekkingu, grunnþáttum dómgæslu auk þess sem farið var yfir verklega þætti. Þeir sem mættu fengu mikla og góða kennslu frá master Lim, sem er einn fremsti poomsae þjálfari í Evrópu. Master Azad fór vel yfir tæknilegu atriðin og má því segja að iðkendur hafi öðlast talsverða þekkingu. Azad og Lim voru ánægðir með hópinn og sögðu Íslendinga vera lengra komnir í poomsae en þeir héldu í byrjun.
TKÍ mun á næstu vikum og mánuðum setja af stað metnaðarfullt starf fyrir alla meðlimi sína og ánægjulegt er að sjá hversu vel verkefnin hafa farið af stað. Stefnt er að áframhaldandi námskeiðshaldi og uppbyggingu á dómarastarfinu og vill TKÍ hvetja alla iðkendur og aðildarfélög í að vera með í því sem framundan er.
Íslandsmótin í bardaga og formi eru á dagskrá í október og verður dómaranefndin þar mætt með fyrstu dómarana sem útskrifaðir eru á þessu ári.