Brons á Swedish Open
Núna um helgina fór fram Swedish Open G-1, sterkt alþjóðlegt stigamót í Olympísku Taekwondo. Á mótinu kepptu aðilar á háu getu stigi allt frá Olympíu verðlaunahöfum, heims og evrópumeisturum til þeirra sem eru að byrja að færa sig inn á hæðsta stig í bardaga. Keppendur voru um 600 og komu víðsvegar að úr heiminum. Landslið Íslands í bardaga mætti á svæðið eftir strangar æfingabúðir seinasta mánuðinn í Englandi og Noregi undir stjórn landsliðsþjálfarans Richard Fairhurst. Keppendurnir okkar voru þau Ingibjörg Erla Grétarsdóttir í -62 senior flokki, Leo Anthony Speight í -68 senior og Guðmundur Flóki Sigurjónsson í -80 senior flokki ásamt landliðsþjálfara.
Þau stóðu sig öll ótrúlega vel og greinilegt að æfingarnar eru að skila sér. Leo landaði bronsi í fjölmennasta flokki mótsins, Ingibjörg Erla og Guðmundur Flóki enduðu bæði í 5. sæti eftir gríðalega flotta frammistöðu við heimsklassa keppendur.

Guðmundur Flóki var fyrstur út á gólfið á sínu öðru móti í fullorðinsflokki (er ennþá junior). Í fyrsta bardaganum keppti hann á móti keppanda frá Tógó. Bardaginn var mjög jafn en Flóki náði að vinna hann 2-0 og komst því áfram í 8 manna úrslit. Þar mætti hann svo Edi frá Danmörku sem vann til bronsverðlauna á seinustu Ólympíuleikum. Bardaginn var í járnum allan tímann þar sem Flóki vann meðal annars lotu tvö og var hársbreidd frá sigri í loka lotunni sem er ótrúlegur árangur. Bardaginn endaði 1-2 og Guðmundur endaði því í 5. sæti í sínum flokki sem er frábær árangur hjá okkar unga manni.
Ingibjörg Erla var svo næst á gólfið gegn keppanda frá Finnlandi. Ingibjörg sýndi mikla yfirburði og stjórnaði bardaganum allan tímann. Bardaginn endaði 2-0 og Ingibjörg því kominn í 8 mann úrslit. Þar mætti hún svo sterkum keppanda frá Taiwan. Ingibjörg sýndi flotta takta og var bardaginn mjög jafn. Keppandinn frá Taiwan náði þó að skríða framúr í lokin á tveim lotum og endaði því bardaginn 0-2. Ingibjörg endaði því daginn í 5. sæti eins og Flóki.
Leo var seinastur okkar keppanda út á gólfið þar sem hann sat hjá í fyrstu umferð. Fyrsti bardaginn var á móti keppanda frá Litháen sem hafði sigrað sterkann Svía í fyrri umferð. Leo sigraði hann 2-1 og fór því áfram í 8 manna úrslit. Í 8 manna úrslitum mætti Leo keppanda frá Frakklandi. Leo sýndi mikla yfirburði og valtaði yfir hann í tveim lotum 2-0. Hann var því kominn áfram í undanúrslit. Í undanúrslitunum mætti hann Serba sem var að eiga sinn besta dag svo fór að Leo varð að játa sig sigraðann 0-2 og Serbinn fór áfram og vann Gull á mótinu. Leo endaði því daginn með brons.
Þess má geta að þetta eru 6. G-verðlaun Leo á einu ári sem er algjörlega einstakt hjá Íslenskum keppanda. Til að setja það í samhengi hafa allir aðrir íslendingar unnið til samans 6. medalíur á seinustu 10 árum og Ingibjörg Erla þar af 5 af þeim. Það eru klárlega bjartir tímar framundan hjá Íslensku Taekwondofólki.