Covid reglur til aðildarfélaga TKÍ

By:

Covid reglur til aðildarfélaga TKÍ

Skv. 3., 4. og 6. gr. Auglýsingar á takmörkun á samkomum vegna farsóttar, dagsett 12. ágúst 2020, vill Taekwondosamband Íslands birta aðildarfélögum sínum eftirfarandi reglur um þjálfun, iðkun og keppni í taekwondo.

Almenna reglan um fjöldatakmarkanir er að óheimilt er að koma saman fleiri en 100 manns í einu rými.  Einstaklingar fæddir 2005 eða síðar telja ekki inn í þann fjölda.

Almenna reglan um nálægðartakmarkanir er að halda skal tveggja metra fjarlægð á milli einstaklinga.
Sé ekki unnt að viðhalda tveggja metra fjarlægð á milli einstaklinga skulu aðilar vera með grímu fyrir vitum sér.
Nálægðartakmarkanir taka ekki til einstaklinga sem fæddir eru 2005 eða síðar.

Undantekningar frá ofangreindum reglum og snerta íþróttir eru eftirfarandi:

Snerting á milli iðkenda er heimil á æfinga- eða keppnissvæði á meðan á æfingu eða keppni stendur.  Gildir þá einu hvort iðkendur eru fæddir fyrir eða eftir 2005.

Almennar reglur að ofan gilda um hegðun í t.d. búningsklefum og þeim hlutum íþróttamannvirkja sem ekki flokkast undir æfinga- eða keppnissvæði.

Þjálfarar, starfsmenn, dómarar og hverjir þeir sem að æfingum, þjálfun eða keppni koma, aðrir en iðkendur eða keppendur, skulu fara að ofangreindum almennu reglum, þ.e. virða 2ja metra regluna og eftir atvikum, bera andlitsgrímu.

TKÍ minnir aðildarfélög sín á að huga vel að sóttvörnum í æfingasölum sínum, ganga úr skugga um að búnaður sé sótthreinsaður með reglulegu millibili og að hafa gott aðgengi að þvottaaðstöðu og handspritti.

Reglur þessar eru í gildi þangað til annað er auglýst.

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að hefta útbreiðslu sjúkdómsins og með samstilltu átaki getum við hraðað ferð okkar í gegnum þennan skafl og komið lífinu fyrr í sinn vanagang.