Nýr landsliðsþjálfari í Sparring – landsliðshelgi 6. – 8. mars 2020

By:

ATH – þeir sem ætla sér að mæta á æfingar með nýjum landsliðsþjálfara í sparring (fædd 2005+) og freista þess að komast í liðið vinsamlegast lesið alla tilkynninguna til enda. Áriðandi upplýsingar fyrir þá einstaklinga má finna neðarlega í tilkynningunni.

Að undanförnu hefur Landsliðsnefnd TKÍ í bardaga ásamt stjórn TKÍ farið yfir umsóknir þeirra einstaklinga sem sóttu um stöðu landsliðsþjálfara. Alls bárust inn átta umsóknir frá einstaklingum víðsvegar um heiminn. Margir hverjir voru mjög reynslumiklir einstaklingar og var ítarlega farið yfir hverja og eina umsókn. 

Sá einstaklingur sem varð fyrir valinu til að gegna hlutverki Landsliðsþjálfara fram yfir Ólympíuleikana 2024 er Gunnar Bratli frá Noregi. 

Gunnar Bratli nýr landsliðsþjálfari í bardaga

Gunnar varð fyrir valinu vegna þess glæsilega árangurs sem hann hefur náð sem þjálfari á undanförnum árum með einstaklingsmiðaðri nálgun. Má þar meðal annars nefna 168 G-medalíur með 42 keppendum. Einnig hafa keppendur sem hann hefur þjálfað unnið til verðlauna á Heimsmeistaramótum, Evrópumótum og Ólympíuúrtökum. Hann hefur starfað með landsliði Noregs sem er eitt sterkasta norðurlanda um þessar mundir. Gunnar hefur einnig hampað titlinum Þjálfara ársins í Taekwondo í Noregi fjórum sinnum.

Eins og koma fram í tilkynningu TKÍ um daginn þá mun Gunnar mæta til landsins föstudaginn 6. mars. Hann mun þá kynna sjálfan sig ásamt því að vera með æfingar og Daedo test fights um helgina 7. – 8. mars.

Dagskrá helgarinnar 6 – 8 mars. 

Föstudagurinn 6. mars 

Staðsetning: hús ÍSÍ við Engjaveg 6 – fundarsalur E, þriðju hæð

Kl. 18.30 – Nýr landsliðsþjálfari í bardaga kynnir sig og stefnu sína.

Allir áhugasamir velkomnir.

Kl. 19.00 – Gunnar spjallar við þá þjálfara sem mættir eru.

Laugardagur 7. mars 

Staðsetning: Afturelding – Íþróttahúsinu Varmá Mosfellsbæ í Taekwondo salnum.

Kl. 10 – 12 og 14 – 16 

Engar beltakröfur. Iðkendur fæddir 2005 og eldri með keppnisreynslu eiga erindi á þessar æfingar. Ef iðkandi hefur aðeins keppnisreynslu innanlands en hefur sett sér markmið um að keppa á erlendum mótum er sá iðkandi velkominn á æfinguna.

ATH – Iðkendur fæddir 2004 og eldri eru beðnir um mæta með Taekwondo ferilskrá (t.d. mót og verðlaun) og raunhæft æfingaskipulag milli landsliðsæfinga ásamt því hvað mót hann/hún stefnir á að fara á á árinu (vinsamlegast mætið með ferilskrána á ensku).

Kl. 16 – 18

Gunnar tekur viðtal við hvern iðkanda.

Sunnudagur 8. mars

Staðsetning: Fimleikafélagið Björk, Haukahraun 1, Andrasal.

Kl. 10 – 13 

Daedo Gen 2 æfinga bardagar.

Hlökkum til að sjá ykkur!