Mexíkanska Taekwondo deildin

By:

Mexíkanska Taekwondo sambandið kynnti til sögunnar nýtt fyrirkomulag í Taekwondo keppni. Um er að ræða deildarkeppni þar sem fylki senda úrvalslið sem keppa svo sín á milli. Í fyrstu umferð tókust á liðið frá fylkinu Puebla á móti Mexíkó Borg. Keppt var í tveimur þyngdarflokkum og sigraði Puebla liðið frá Mexíkó borg 3-2.

Tilraunin tókst vonum framar að sögn formanns Mexíkanska TKD sambandsins og mun deildinni ljúka í október. Einnig var keppt í svokölluðum boðhlaups-bardaga, þar sem ekki er skipt eftir þyngd heldur aldri. Hver keppandi fær eina lotu og svo tekur sá næsti við. Keppt var í junior og senior og vann Mexíkó Borg junior flokkinn og Puebla senior. Hægt er að lesa meira um tilraunina hér. Keppendur á íslandsmótinu í Sparring sem var haldið í Ármann á þessu ári muna kannski eftir þessu fyrirkomulagi en það vakti gríðarlega athygli áhorfenda.

Íslensk Taekwondo deild var kláruð á teikniborði TKÍ á síðasta ári en ekki hrint í framkvæmd. Tilraunar-deild var útbúin með fjórum liðum sem mættust einu sinni í mánuði og kepptu við það lið sem þau áttu að mæta samkvæmt keppnisskipulagi. Gert var ráð fyrir 5 keppendum í hverju liði og keppt í mismunandi þyngdarflokkum. Félög sem hafa áhuga á að kynna sér hugmyndina geta haft samband við TKÍ.