Jin og Jang

Flestir þekkja táknið á útliti og vita að merking þess eru andstæður, t.d. svart og hvítt, tungl og sól, vont og gott, þurrt og blautt, hart og mjúkt, plús og mínus, karlmaður og kvenmaður o.s.frv. Jang og jin táknið er einfalt í útliti en endurspeglar mjög djúpa og viðamikla merkingu.

Skilgreining á jang og jin er svohljóðandi:

„Jin og jang eru tveir aðalþættir tilverunnar samkvæmt austurasískum trúarbrögðum og heimspekinnar, einkum í taósið. Jang er hið karllega, bjarta, hlýja, kvika, frjóvgandi, miðfælna, útleitandi afl. Jin hið kvenlega, dimma, svala, rólynda, þiggjandi, miðlæga, innleitandi afl. Alheimurinn og allt sem lifir myndast og er til við samleik og víxláhrif jin og jangs.“

Merkið jang og jin er fyrir miðju kóreska fánans sem talið er vera fullkomið, í jafnvægi og að þar sé algert samræmi. Stöðug hreyfing er innan hringsins þar sem óendanleiki er ein eining. Blár litur í fánanum er jin, eða Eum á kóresku, og stendur fyrir neikvæðni og rauður er jang, Yang á kóresku, og táknar jákvætt.

Ævaforn sýn er á gang veraldarinnar og samkvæmt henni er allt sem til er (himinn, jörð, menn, dýr og guðir) búið til úr sama grundvallarefninu „qi”. Kjarninn qi eru tveir gagnverkandi kraftar jang og jin. Li mótar undirstöðu efnisins qi og taldi Konfúsíus að allir hlutir og mannlegt eðli hafi í sér fólgið skipulag.

Í Kóreu bera heitin jang og jin einnig nafnið „TaeGuk-ki” sem stundum er kallað „Taeguk”. Einnig ber fáninn oft þetta heiti og í báðum tilfellum endurspeglar nafnið eða merking hugsunina „I Ching”, eða „Yeok / JooYuk” á kóresku. Yeok er bók sem skrifuð var af Kínverjum fyrir þúsundum ára sem segir frá kóreskri heimspeki um „SamSin”, guðina þrjá. Þar kemur fram að allir hlutir og atburðir eiga sér stað vegna krafta og hreyfinga jang og jin.

Í taekwondo er jang táknað með vinstri hluta líkamans og byrja öll tae geuk form á hreyfingu með vinstri hendi. Allar upphafshreyfingar byrja með varnarhreyfingu til tákns um frið og á eftir kemur árásarhreyfing á ímyndaðan andstæðing. Jin er táknað með hægri hluta líkamans og enda öll tae geuk formin á árás til tákns um árás til sigurs.

Í taekwondo er mikið lagt upp úr því að ná stjórn á jafnvægi, samhæfingu og hugsun. Án hugsunar er erfitt að ná tökum á samhæfingu, án samhæfingar er erfitt að ná tökum á jafnvægi, án jafnvægis er erfitt að ná tökum á samræmingu.
Andleg líðan og andlegt jafnvægi hefur mikil áhrif á árangur og getu fólks í hverju sem það tekur sér fyrir hendur. Líkamlegur styrkur er jafn mikilvægur og andlegur og huglægur styrkur við notkun og iðkun taekwondo.

Andlegur hluti mannsins er andstæða við líkamlegan hluta mannsins, þar sem andlegt er ósýnilegt og ósnertanlegt en líkaminn er sýnilegur og snertanlegur. Jin er innra sviðið eða mýkri orka; tilfinningar, kærleikur og samúð. Jin er móðurhlutinn, sameinigarorka og hið fóstrandi afl fyrir sköpun og heimilið. Jang er sterkari orka, karlmannshlutinn, og birtist í einhverju kraftmiklu, eitthvað sem upphefur alla krafta. Með jang orku eru menn að sanna sjálfa sig. Jang er sköpunarorka en fjölgar sér ekki. Persónuleikinn er jang, en æðra sjálfið er jin, sem birtist sitt á hvað, en þegar yfir lýkur þá þarf jang að elska það innra, jin. Jang þarf að sleppa tökum og leyfa jin að koma niður með kærleika og samúð.

Jin og jang halda jafnvægi og mynda sameiningu, eru gagnkvæmt útilokandi og háðir hvor öðrum til sköpunar.

© Texti: Írunn Ketilsdóttir