Taekwondosamband Íslands hefur valið íþrótta mann og konu ársins 2014
Taekwondosamband Íslands hefur valið íþrótta mann og konu ársins 2014
Íþróttamaður ársins 2014 er Meisam Rafiei
Íþróttakona ársins 2014 er Ástrós Brynjarsdóttir
Meisam Rafiei taekwondomaður ársins 2014
Ástrós – Taekwondokona Íslands 2014
Meisam Rafiei, er vel að titilinum kominn. Meisam er fæddur og uppalinn í Íran en fluttist til Íslands árið 2010.
Hann hóf þegar fulla þátttöku í landsliðsverkefnum sem iðkandi og aðstoðarþjálfari landsliðsins. Hann tók síðan við sem aðallandsliðsþjálfari Íslands árið 2011. Hann gat þó ekki keppt fyrir Íslands hönd á Evrópu- og Heimsmeistaramótum fyrr en hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2012. Að vísu komu alvarleg meiðsli í veg fyrir að hann gæti keppt fyrir Ísland fyrr en upp út miðju ári 2013 og var hann ekki orðinn alveg góður af meiðslunum fyrr en í byrjun árs 2014.
Byrjaði hann keppnisárið með því að keppa á stórum topp styrkleika mótum eins og Ameríska opna, Kanadíska opna og svo í Svíþjóð á Trelleborg Open og byrjaði það mjög vel enda náði hann 3. sæti á því móti. Með því náði hann sér í stig inn á heimslistann sem hann hafði ekki gert í 2 ár vegna meiðslanna.
Keppti Meisam á nokkrum topp-styrkleika mótum út árið og vakti umtalsverða athygli og náði að vinna sterka andstæðinga, en náði því miður ekki á verðlaunapall á þessum mótum þó að oft hafi munað mjög litlu enda er þessi flokkur með þeim erfiðari vegna fjölda keppenda. Meðal annars keppti hann á Evrópumeistaramótinu í Baku og lenti í 16 sæti eftir að hafa tapað fyrir keppanda frá Portugal sem síðan stóð uppi sem sigurvegari mótsins og er núna númer 1 á styrkleikalista heimssambandsins.
Í október keppti Meisam á Serbneska opna, sem er topp styrkleika mót og endaði þar í 5-8 sæti af 29 keppendum. Þar var hann einnig sleginn út af sigurvegara mótsins, núna frá Mexikó og bardagi þeirra tapaðist með minnsta mun 7-8 fyrir Mexikóanum. Þess má geta að Mexikóinn sigraði Evrópumeistarann í úrslitum og er núna númer 2 á heimslistanum.
Meisam keppti á Norðurlandamótnu í maí og sigraði þar sinn flokk með yfirburðum, og var áberandi sterkasti keppandi mótsins.
Meisam var í nóvember einn af 8 íþróttamönnum til þess að hljóta styrk frá Ólympíusamhjálpinni til þess að reyna að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Rio 2016. Til þess að vinna 100% að því að uppfylla draum sinn um að keppa á Ólympíuleikum hefur hann sagt upp landsliðsþjálfarastöðu sinni, og þegar látið af störfum, til þess að einbeita sér að keppnum sem gefa stig í átt að Ólympíusæti, en aðeins 16 keppendur úr öllum heiminum komast inn í Ólympíuleikana í hverjum þyngdarflokki, Sex efstu á heimslista komast beint til Ríó en16 bestu keppendur Evrópu þurfa að keppa á sérstöku móti um 2 laus sæti til viðbótar. Meisam er sem stendur í 16.sæti Evrópulistans.
Helstu afrek Meisams á árinu eru:
- Reykjavík International Games – 1.sæti.
- Norðurlandameistari
- Trelleborg opna – 3.sæti
- Kanadíska opna – 9.sæti
- Bandaríska opna – 9-16.sæti
- Hollenska opna – 16.sæti
- Gríska opna – 8.sæti
- Evrópumótið í Baku – 16. Sæti
- Serbneska opna – 8.sæti
Ástrós Brynjarsdóttir, úr Keflavík hefur verið valin íþróttakona ársins 2014 í taekwondo. Þetta er þriðja árið í röð sem Ástrós hlýtur þessa viðurkenningu.
Ástrós er ein efnilegasta taekwondokona heims og eini Íslendingurinn sem hefur keppt bæði á heimsmeistaramóti í bardaga og í formum á árinu, með eftirtektarverðum árangri, en greinarnar eru það ólíkar að það má líkja þeim við mismunandi greinar í frjálsum íþróttum.
Á heimsmeistaramóti unglinga í bardaga í Tævan tapaði hún naumlega fyrir þeim keppanda sem stóð síðan uppi sem heimsmeistari á því móti.
Á heimsmeistaramótinu í Mexicó í formum varð Ástrós í 10. sæti í afar fjölmennum flokki eftir að hafa slegið út m.a. ríkjandi Evrópumeistara. Þess má geta að eftir fyrstu umferð var Ástrós með 4 bestu einkunn af 18 keppendum, en til að komast á þessi mót þarf að komast í gegnum erfitt úrtökuferli þar sem einungis hinir allra bestu keppendur heims komast á lokamótin.
Á Norðurlandamótinu í maí átti Ástrós frábæran dag. Hún varði Norðurlandameistaratitilinn í bardaga með glæsibrag er hún sigraði bestu keppendur Noregs og Danmerkur með miklum mun, eða samtals með 33 stig skoruð gegn einungis 6 sem hún fékk á sig. Í tækni stóð hún sig einnig mjög vel en Ástrós var aðeins 0.05 í einkunn frá gullinu sem er ótrúlega lítill munur á henni og einum besta keppanda Evrópu í greininni og þurfti því að láta sér silfrið duga. Hún fékk einnig silfur í hópatækni.
Á Reykjavík Interntional Games vann Ástrós til fjögurra gullverðlauna, sigraði í öllum greinum sem hún keppti í, og var ennfremur valin keppandi mótsins.
Ástrós keppti á Íslandsmótinu í tækni og sigraði allar keppnisgreinarnar. Hún fékk gull í einstaklings, gull í hópa og gull í paratækni og er þetta í 3. sinn sem hún tekur öll gullin sem eru í boði á Íslandsmóti í tækni. Ástrós er enn ósigruð á íslenskum vettvangi í tækni eftir yfir 35 framkomur. Hún var einnig valin keppandi mótsins á Íslandsmótinu en hún hefur ávallt fengið þá viðurkenningu þegar hún hefur keppt.
Þess utan er Ástrós margfaldur bikarmeistari bæði í bardaga og formum.
Ástrós er einstaklega ákveðinn og einbeittur íþróttamaður sem hefur sýnt fram á mikinn vilja til að ná langt í sinni íþrótt. Hún tileinkar sér venjur marga bestu íþróttamanna heims og sættir sig ekki við neitt nema fyrsta flokks frammistöðu á öllum sviðum.
Helstu afrek Ástrósar á árinu eru:
- Norðurlandameistari í bardaga
- Silfurverðlaun á Norðurlandamóti í formum
- RIG meistari í bardaga
- RIG meistari í formum, einstaklings,para og hópa.
- RIG valinn keppandi mótsins
- Gullverðlaun í formum á Rodövre Cup í Danmörku
- Þrefaldur Íslandsmeistari í formum
- Íslandsmeistaramót í formum, valinn keppandi mótsins með lang hæstu einkunn.
- Bikarmeistari í bardaga
- Bikarmeistari í formum
- Bikarmeistari keppandi mótsins í samanlögðu.
- 10. sæti á heimsmeistaramótinu í formum í Mexíkó
- 9-16.sæti á heimsmeistarmótinu í bardaga.
- Samtals 13 gull og 2 silfur.