Taekwondofólk ársins 2019

By:
Álfdís Freyja Hansdóttir
Taekwondokona ársins 2019

Álfdís Freyja Hansdóttir, junior keppandi, úr félaginu Ármann hefur verið valin Taekwondokona ársins 2019. Álfdís byrjaði að æfa taekwondo 7 ára gömul og tók hún svarta beltið í maí 2017. Hún hefur tekið miklum framförum á undanförnum misserum og hefur árangur hennar sýnt að hún er orðin einn fremsti poomsae keppandi landsins.  Hún hefur keppt á flestum innlendum mótum undanfarin ár með glæsilegum árangri. Álfdís var valinn til að keppa á HM í Tapei 2018 fyrir hönd Íslands og keppti hún einnig á Norðurlandamótinu það sama ár og komst þar á verðlaunapall. 2019 keppti Álfdís á Norðurlandamótinu, Evrópumeistaramótum í traditional og beach poomsae sem fram fóru í Tyrklandi auk innlendra móta.  Álfdís hefur hlotið flest Gullverðlaun í Poomsae á árinu allra kvenna á Íslandi. Á Bikarmótum ársins fékk hún 6 gull og 3 silfur, á Íslandsmeistaramótinu 2019 í poomsae fékk hún 3 gull og var þá einnig valin kona mótsins. Hún er því verðugur fulltrúi taekwondoíþróttarinnar.

Leo Anthony Speight
Taekwondomaður ársins 2019

Leo Anthony Speight, senior keppandi í bardaga, úr félaginu Björk hefur verið valinn Taekwondomaður ársins 2019. Leo hefur stundað Taekwondo af kappi í 7 ár og hefur verið einn fremsti taekwondo bardaga maður á Íslandi seinustu ár og verið duglegur við keppni og æfingar innan sem og utan landsteinanna Seinustu tvö ár hafa verið einstaklega góð hjá Leo og hefur hann landað fjöldann allan af verðlaunum bæði hér heima sem og erlendis. Meðal annars má nefna Norðurlandameistara titil og Íslandsmeistara titla, G-medalíur og silfur á breska meistaramótinu.

Leo byrjaði í Senior flokki á árinu og því töluverð breyting frá fyrri árum og mikil orka farið í æfingar til að aðlagast nýjum flokki. Í apríl sigraði hann mjög örugglega á Bikarmóti TKÍ í bardaga í Senior A -80kg þrátt fyrir að keppa venjulega í -68kg flokki. Hann hefur einnig verið iðinn við að keppa á G-mótum erlendis með miklum stíganda og á seinasta móti ársins, French Open, sigraði hann fyrsta bardaga sinn örugglega en rétt tapaði svo naumlega öðrum bardaga eftir að vera yfir þar til rétt í lokin á móti geysi öflugum Svía. Hann keppti svo á breska meistaramótinu þar sem 1000 keppendur voru skráðir til leiks. Eftir þrjá öfluga bardaga þar sem hann sýndi mikla yfirburði tapaði hann þeim fjórða naumlega og fékk því silfurverðlaun í ótrúlega sterkum flokki Senior A -68kg. Leo er einnig ósigraður á íslenskum mótum seinustu 4 ár bæði í Junior og Senior flokkum. Hann hefur verið duglegur að fara upp um flokka til að takast á við þá allra sterkustu. Leo sækir æfingar aðra hverja viku í Englandi þar sem hann æfir með þeim bestu þess á milli sem hann æfir með félagi sínu Björk og keppnisliði Einherja. 

Leo er ennfremur sérlega sterk fyrirmynd fyrir taekwondofólk á öllum aldri og af öllum getustigum. Hann kemur fram við alla af stakri hógværð, kurteisi og virðingu. Leo Anthony er ekki bara einn okkar allra bestu keppenda, heldur er hann einnig fulltrúi allra þeirra góðu gilda sem einkenna íþróttina og hugsjónina sem hún stendur fyrir. Hann er því verðugur fulltrúi taekwondoíþróttarinnar.

Taekwondosambandið óskar þessum tveimur einstaklingum innilega til hamingju og hlakkar til að fylgjast með þessum einstaklega vinnusömu og efnilegu taekwondoiðkenndum næstu árin. 

TKÍ vill taka fram að formaður sambandsins tók ekki þátt í vali á Taekwondofólkinu þetta árið. Tekið var tillit til verðlauna og árangurs á árinu þar sem sigrar þurftu að liggja á bakvið verðlaun til að þau væru tekin til greina. Þannig fannst stjórn sambandsins fólkið með besta árangurinn verða fyrir valinu. Sambandið er stolt af þeim báðum fyrir glæsilegan árangur.