Breytingar innan TKÍ

By:

Kæru félagar

Taekwondosamband Íslands stendur í stórræðum þessa dagana í uppbyggingu og eru miklar breytingar í vændum á mörgum vígstöðum sem vonandi verða til þess að auka samstarf og þátttöku allra félaga í starfi sambandsins. Nú þegar hafa nokkrar fagnefndir þvert á félög verið stofnaðar til að taka á hinum ýmsum málum í samstarfi við stjórn TKÍ og margt af því starfi komið vel á veg. 

Við fögnum að sjálfsögðu áliti og skoðunum sem flestra og í tilefni þess hefur stjórn nú sent út boð til allra stjórna og yfirþjálfara félaga innan TKÍ þar sem þeim er boðið að koma á fund með stjórn TKÍ til að ræða þeirra skoðun og hugmyndir á starfi TKÍ. Við teljum að með því að hlusta á alla takist okkur betur með að auka samvinnu og gleði í íþróttinni okkar. 

Því miður treystu ekki allir stjórnarmeðlimir sér í þessa vegferð og hafa því í kjölfarið sagt af sér. Stjórn TKÍ heldur þó ótrauð áfram í því að vinna að faglegum breytingum innan sambandsins sem meðal annars ganga út á að samræma regluverk og starfshætti sambandsins að alþjóðalögum og reglum WT. Einnig mun stjórnin vinna að breytingum til að auka samstarf og jafnræðis milli allra félaga og iðkennda innan sambandsins. 

Breytingar á stjórn Taekwondosambands Íslands er því eftirfarandi: Hólmfríður Inga Eyþórsdóttir og Jón Oddur Guðmundsson hafa látið af störfum í stjórn TKÍ og hefur 1. varamaður stjórnar, Rúdolf Konráð Rúnarsson, og 2. varamaður stjórnar, Eduardo Rodriguez, tekið við sætum þeirra. 

Stjórn TKÍ vill þakka Ingu og Jón Odd fyrir störf sín í stjórn TKÍ og óskar þeim velfarnaðar. Á sama tíma bjóðum við Rúdolf og Eduardo velkomna til starfa. 

Við vonum að með því starfi sem nú er í gangi takist okkur með hjálp ykkar allra að hefja íþróttina sem við öll elskum upp á þann stall sem hún á skilið og að komandi vetur verði Taekwondo íþróttinni á Íslandi til heilla.

Sylvía Speight, formaður TKÍ