Tvö gull og silfur á Scandinavian Open

By:

Þrír keppendur kepptu í bardaga fyrir Íslands hönd á Scandinavian Open, þeir Davíð og Daníel Péturssynir ásamt Ingibjörgu Grétarsdóttur og stóðu þau sig öll með stakri prýði.

Fyrstur á gólf var Davíð Pétursson. Hann keppti í -33kg cadet flokki og hlaut silfur í sinn hlut. Þetta var fyrsta mót hans erlendis og eigum við eflaust eftir að sjá mikið meira frá Davíð í framtíðinni.

Daníel keppti næstur í -80kg senior karla. Alveg frá upphafi bardagans var mikill kraftur í Daníel og átti andstæðingur hans ekki roð í hann.  Bardaginn var stöðvaður í 3. lotu þegar Daniel skoraði sitt 20. stig. Þá var kominn 12 stiga munur og bardaginn stöðvaður samkvæmt reglum. Lokatölur voru 20-8 Íslandi í vil. Þetta var undanúrslitabardagi og bar andstæðingur Daníels því brons úr býtum. Í úrslitabardagnum stóð Daníel sig enn og aftur frábærlega og endaði bardaginn 15-8. Þar með hafði Daníel tryggt sér gullið í sínum flokki. Eftir þessa frábæru frammistöðu var Daníel svo valinn keppandi mótsins.

Ingibjörg keppti tvo bardaga í -62kg flokki kvenna. Sá fyrri fór 11-6 Ingibjörgu í vil og átti hún aldrei í neinum vandræðum með mótherjann. Hún stjórnaði bardaganum frá upphafi og vann glæsilegan sigur. Síðar hélt Ingibjörg í úrslitabardagann. Um miðja 2. lotu var staðan orðin 12-6 fyrir Ingibjörgu. Stuttu seinna náði hún inn flottu haussparki sem reyndist of mikið fyrir andstæðinginn. Ingibjörg vann því bardagann á tæknilegu rothöggi og tryggði sér gullið.

Einnig skal geta þess að Esbjerg Taekwondo klúbburinn varð stigahæðsta lið mótsins og Cecilie Ladefoged frá Esbjerg klúbbnum var valinn keppandi mótsins í kvennaflokki. Formaður klúbbsins þakkaði Meisam Rafiei sérstakelga þennan árangur í samtali við formann TKÍ. Meisam hefur farið þrjár ferðir til Esbjerg til kennslu þetta haust og hafa þeir hjá Esbjerg óskað eftir frekari samvinnu á þessu samstarfi.

Við óskum öllum hjartanlega til hamingju með árangurinn.