Tvö G-silfur og E-gull
Seinustu helgi fór fram í bardaga seinasta alþjóðlega Taekwondo stiga keppnin á árinu í Evrópu. Balkan Cup G-1/E-1 var haldið í Rúmeníu og voru 418 keppendur skráðir til leiks frá tugum landa til að ná sér í stig á heimslistanum. Íslenska landsliðið var á svæðinu með 3 keppendur. Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Leo Anthony Speight kepptu í fullorðinsflokki og Guðmundur Flóki Sigurjónsson í unglingaflokki.
Keppnin byrjaði á laugardeginum í fullorðinsflokki sem er G hluti mótsins og gildir til stiga á heimslistanum.
Ingibjörg Erla var fyrst á gólfið í 8 manna flokki í senior A -62. Hún gerði sér lítið fyrir og sigraði tvo fyrstu bardagana á móti sterkum keppendum frá Svartfjallalandi í 8 manna úrslitum 1-2 og undanúrslitum 2-0. Í úrslitum varð hún svo að játa sig sigraða 0-2 gegn fyrnasterkum keppanda frá Króatíu sem situr í 14 sæti heimslistans. Ingibjörg náði sér í silfur og 6 dýrmæt stig fyrir heimslistann ekki slæmt það.
Svo var komið að Leo Anthony sem keppti í stærsta flokki mótsins Senior A -68 sem var með 17 keppendur frá 11 löndum. Leo fór á móti keppanda frá Búlgaríu í 16 manna úrslitum og sigraði hann örugglega 2-0. Næst mætti hann svo Frakka í 8 manna úrslitum og sigraði hann einnig örugglega 2-0. Í undanúrslitum var svo komið að keppanda frá Svartfjallalandi sem hafði farið illa með sterka keppendur í umferðunum á undan. Leo tapaði lotu eitt en gerði sér svo lítið fyrir og sigraði næstu tvær loturnar nokkuð örugglega þannig að hann vann bardagann 2-1 og kominn í úrslit. Í úrslitum mætti Leo fyrnasterkum Frakka og varð því miður að játa sig sigraðan eftir góða baráttu 0-2. Leo nældi sér þannig í silfur og dýrmætu stigin 6 eins og Ingibjörg.
Á sunnudeginum var svo komið að E hluta mótsins sem er fyrir yngri keppendur. Þar var Guðmundur Flóki að keppa fyrir Íslands hönd í Junior A -73. Hann fékk 2 bardaga, fyrst gegn Rúmeníu og svo gegn Slovakíu. Guðmundur sýndi mikla yfirburði og sigraði báða bardagana örugglega 2-0 og nældi sér þannig í gull.
Íslenska landsliðið hefur verið á mikilli siglingu nú í ár og hefur sýnt það að þau eigi heima meðal þeirra bestu. Fullorðins landsliðið hefur á árinu nælt sér í 2 gull og 4 silfur á alþjóðlegu G mótunum og er það langmesta sem íslendingar hafa náð á einu ári. Einnig hefur ungligalandsliðið verið á magnaðri siglingu og tryggt sér 2 E gull sem einnig er það mesta sem hefur náðst.