Gull og silfur á Möltu
Núna um nýliðna helgi fór út flottur hópur Taekwondo keppanda í bardaga frá Íslandi til að keppa á Malta Invitational Games of small countries. Þar á meðal voru tveir íslenskir landsliðskeppendur, þau Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Leo Anthony Speight ásamt Gunnari Bratli landsliðsþjálfara. Mótið var G-1/E-1 mót og gildir þar með til stiga á heims og evrópu-listanum.
Keppni hófst á laugardeginum í unglingahluta mótsins E-1. Þar voru tveir Íslendingar mættir til keppni. Þeir urðu því miður að játa sig sigraða í fyrsta bardaga dagsins og voru því úr leik þrátt fyrir flott tilþrif.
Á sunnudeginum var svo komið að fullorðinsflokkunum þar sem þrír Íslendingar kepptu og þar af okkar tveir landsliðskeppendur. Fyrst á gólfið var okkar sterkasta kona Ingibjörg Erla Grétarsdóttir sem var að koma úr meiðslum og keppti því í þetta skiptið í -62 kg flokki en ekki í sínum venjulega flokki sem er -57 kg. Hún fór fyrst á móti Eleni Vasiliadou silfurverðlaunahafa frá Beirut Open 2023. Fyrsta lota var í járnum þangað til að nokkrar sekúndur voru eftir þar sem hún náði að tryggja sigur í lotunni 3-1. Okkar kona kom svo mjög einbeitt í lotu tvö þar sem hún hafði algjöra yfirburði og vann lotuna 12-0 og þar með bardagann. Ingibjörg því komin í undanúrslitin.
Leo sat hjá í fyrstu umferð en mætti svo í sínum fyrsta bardaga Ioannis sterkum keppanda sem er meðal annars með tvö bronsverðlaun frá evrópumótum fyrri ára. Leo byrjaði bardagann rólega og var lotan í járnum framan af, hann varð svo að játa sig sigraðan í lotu 1, 5-7. Okkar maður kom svo mun einbeittari til leiks í lotu 2 þar sem hann stjórnaði lotunni allan tímann og vann hana 10-6. Lota 3 fór af stað með miklum látum og tilþrifum þar sem báðir aðilar ætluðu klárlega að sækja sigurinn. Það fór svo þannig að okkar maður sigraði lotuna 11-8 og þar með bardagann og var því kominn í úrslit.
Næst var svo komið aftur að Ingibjörgu. Í þetta skiptið var komið að Mangen ungum keppanda frá Lúxemborg. Ingibjörg kom mjög einbeitt til leiks og sýndi algjöra yfirburði í lotu 1sem hún sigraði 11-3. Sama var uppi á teningnum í lotu 2 sem hún vann 13-6 og þar með bardagann. Ísland var því komið með tvo landsliðskeppendur í úrslit.
Leo var fyrstur til að keppa í úrslitum þar sem hann fór á móti Iosif ungum keppanda frá Kýpur. Leo stjórnaði öllum bardaganum og sigraði hann örugglega . Lotu 1, 8-4 og lotu 2, 16-0. Önnur gullverðlaun hans og 3 medalían á G-1 alþjóðlegu stigamóti á árinu. Glæsilegur árangur það.
Næst var svo komið að Ingibjörgu í úrslitum þar sem hún mætti Klaudija fyrna sterkum keppanda frá Litháen sem er númer 27 á heimslistanum. Litháinn var einu númeri of stór fyrir Ingibjörgu þennan daginn sem varð að játa sig sigraða. Lota 1 fór 1-5 og lota 2 2-7. Ingbjörg endaði því daginn með silfur sem margir segja að sé gulli betra. Frábær árangur hjá okkar fólki sem er búið að vera á mikilli siglingu á árinu. Aðrir íslendingar náðu ekki að sigra bardaga á mótinu en sýndu flott tilþrif og því bjart framundan hjá okkar flotta fólki.