Taegeuk og Poomse

Taekwondo samanstendur af mörgum þáttum sem æfa þarf jafnmikið svo að nemandinn þroskist og taki framförum. Einn stór hluti er Poomse. Poomse eru munstur af samsettum hreyfingum þar sem nemandinn verður að ímynda sér árás frá öllum hliðum, verja sig og gera gagnárás. Nemandinn á að læra nýtt munstur fyrir hvert beltapróf. Hér ber að minnast á að hjá hinum Taekwondo samböndum eru iðkuð annarskonar munstur sem bera nöfnin Pal Gwe, Hyong (ITF), Tull (ITF, GTF). En Taegeuk og Poomse eru sérstök að því leiti að þau fela í sér stuttar og langar stöður.

Poomse varð til fyrir mörgum öldum þegar ljóst var að það vantaði bardagaþjálfun fyrir nemendur þar sem þeir gætu æft einir, án þess að meiðast eða skaða aðra, eins og í raunverulegum bardaga þegar barist var til dauða. Það hefur verið bent á að ef fjölskylduaðili eða nemandi var særður eða drepinn í gömlum austurlenskum samfélögum (og á Íslandi og víðar…) var hefnd eina leiðin fyrir viðkomandi Kwan eða fjölskyldu til að ná fram réttlæti. En með Poomse æfingum kemst nemandinn hjá þessu, sem betur fer fyrir alla. Í dag getum við hugsað okkur Poomse sem útrás fyrir bardagalöngun, meinlausa leið til að æfa bardagalist og íhugun í Taekwondo.

Grunnhugsunin á bak við Poomse munstrin er Taegeuk heimspeki. Þessi heimspeki er Taoísk og kemur úr kínversku bókinni I´Ching, (Bókin um breytingar). Orðið Tae þýðir heildin, og Geuk þýðir eilífðin. Þessi hugtök, sett saman í heimspekinni, eru huganum mikið glímuefni. Taegeuk má skýra þannig að sálinni, huganum og líkamanum sé fullnægt með réttri og mikilli iðkun þessara munstra. Taegeuk inniheldur allt, hefur ekkert fast form, og hvorki upphaf né endi.

Taegeuk er skipt í átta heimspeki kenningar sem byggjast á táknum á kóreanska fánanum. Hringurinn í miðjunni skiptist í rauðan hluta, Um, fyrir ofan og bláan hluta, Yang, fyrir neðan. Um og Yang (sbr. Kínverska Yin og Yang) tákna hið eilífða tvíeðli í umheiminum: kona og maður, ljós og myrkur, jörðin og himinninn, gott og illt, hiti og kuldi, o.s.frv. Um er kvenhlíðin og Yang er karlhlíðin. Af 64 Gwe eru 8 mikilvægust. Fyrstu 8 Taegeuk munstrin eru byggð á þessum 8 Gwe. 4 þeirra koma táknrænt fram á kóreanska fánanum. Hvert Gwe er byggt upp af þremur strikum sem geta verið heil eða brotin og verða þannig til 8 mismunandi samsetningar, og þar afleiðandi eru 8 Taegeuk munstur. Staðsetningur Gwe strikanna í hornum fánans tákna höfuðáttirnar fjórar. Ee Gwe, í lægra horninu vinstra megin, er munstrið fyrir Taegeuk Sam (III) Jang og táknar austur, þegar sólin rís, dagurinn byrjar og lífverur vakna. Kun Gwe er þar fyrir ofan, og táknar suður, þegar sólin skín heitast og er beint fyrir ofan jörðina. Strikin í Kun Gwe eru munstrin fyrir Taegeuk Il (I) Jang. Uppi í hægra horninu er Kam Gwe. Kam Gwe strikin eru munstrið fyrir Taegeuk Yuk (VI) Jang. Kam Gwe táknar sígandi sólina í vestri. Kon Gwe er í lægra horninu hægra megin og táknar myrkrið þegar sólin sest og tákna strikin 8. munstrið, Taegeuk Pal (VIII) Jang.

Hvernig á maður að iðka og læra munstrin og hvernig getur maður þroskast með því að gera Poomse? Poomse æfingar krefjast fullrar einbeitingar allan tímann. Með einbeitingu kemur aukinn skilningur á hreyfingunum og hvernig þær passa saman. Hvert Taegeuk hefur sinn takt sem er langt frá því að vera vélrænn. Margir hugsa ekki nógu mikið um hvað þeir eru að gera meðan þeir gera munstrin. Þeir skilja ekki, eða vita ekki hvað Taegeuk táknar, og átta sig ekki á að þeir geta lært meira um Taekwondo með því að æfa munstrin af líkama og sál. M.ö.o. er Taegeuk nokkurs konar hugleiðsla.

Helstu þumalfingurreglur sem hafa ber í huga þegar Taegeuk munstrin eru æfð:

  1. Vera með fulla einbeitingu, Mook-Nyeom, og meðvitund allan tímann.
  2. Klára hverja hreyfingu fullkomlega áður en byrjað er á næstu hreyfingu.
  3. Æfa með Sison. Vera meðvitaður um allt í kringum sig og líta alltaf fyrst í þá átt sem maður ætlar að snúa sér í. Nota ímyndunaraflið.
  4. Leggja áherslu á þann líkamshluta sem krefst notkunar í hverri hreyfingu; t.d. á hnefann og handleginn þegar þú kýlir, en láta líkamann annars vera afslappaðann.
  5. Setja hreyfingar saman á eðlilegan hátt og muna eftir að sameina handa- og fótahreyfingar.
  6. Ho Hop. Það er mikilvægt að pústa rétt í gegnum munstrið og pústa djúpt eftir erfiðar samsetningar. Það er rangt að keyra á fullu í gegnum munstrið þannig að maður nái ekki andanum þegar maður er búinn.
  7. Ki Hap. Í síðustu hreyfingu flestra munstranna á maður að safna saman innri orku og krafti og sleppa þeim lausum með Ki-Hap öskrinu.

© Texti: Sigrún Anna Qvindesland
© Mynd: Erlingur Örn Jónsson