Aðstoðarlandsliðsþjálfarar TKÍ í keppnisferðum eru sjálfboðaliðar sem eru skipaðir fyrir tilteknar ferðir.  Um hlutverk aðstoðarlandsliðsþjálfara gilda ákveðnar væntingar, skyldur og réttindi.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal styðja við störf landsliðsþjálfara, og skal vera fær um að vinna í nánu samstarfi við landsliðsþjálfara.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal vera helsta stoð og stytta landsliðsþjálfara og fararstjóra á erlendri grundu. Einnig skal aðstoðarlandsliðsþjálfari vera í samráði við og aðstoða fararstjóra í undirbúningi ferðar.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal hafa yfirsýn yfir það hvenær íslenskir keppendur eiga að stíga inn á gólfið og einnig á hvaða keppnisgólfum þeir eiga að vera. Hann skal sjá til þess að landsliðsþjálfari og fararstjóri viti það einnig, og skal sjá til þess að allir séu reiðubúnir til þess að taka sína stöðu þegar keppni fer fram (keppendur, þjálfarar, sjúkrateymi, o.s.frv.),.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal hafi fulla yfirsýn yfir skipulag keppni á mótsdegi og öllum atriðum sem kunna að varða keppendur og þjálfara. Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal kynna sér boðsbréf móts með góðum fyrirvara, og ber sameiginlega ábyrgð með fararstjóra á að farið sé eftir leiðbeiningum sem koma fram þar.
 
Aðstoðarlandsliðþjálfari skal mæta á fundi mótsstjórnar vegna skipulags mótsins ásamt fararstjóra eða landsliðsþjálfara.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal hvetja keppendur og koma ábendingum um afrek þeirra, árangur og framkomu til Landsliðsnefndar og stjórnar TKÍ eftir því sem við á. Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal senda Landsliðsnefnd og stjórn TKÍ yfirlit yfir frammistöðu allra keppenda sem verður inntak í árlegri skýrslu Landsliðsnefndar.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal sjá til þess að myndir séu teknar af keppendum og sjálfboðaliðum á mótsstað og í keppnum, og koma þeim áleiðis til stjórnar TKÍ til þess að unnt sé að hrósa hluteigandi opinberlega. Æskilegt er að þessum myndum sé komið til skila með því að birta þær opinberlega á Facebook ásamt hrósi fyrir hönd TKÍ. Einnig á þetta við um æfingar og viðburði sem teymið sækir á erlendri grundu til þess að auka við liðsheild.
 
Æskilegt er að aðstoðarlandsliðsþjálfari sé einstaklega hæfur í mannlegum samskiptum. Auk þess er nauðsynlegt að viðkomandi sé fær til þess að starfa sem þjálfari á keppnisgólfi og hafi öll tilskilin leyfi til þess. Einnig er æskilegt að aðstoðarlandsliðsþjálfari hafi viðeigandi menntun í skyndihjálp og hafi sótt þjálfaranámskeið ÍSI. Æskilegt er að aðstoðarlandsliðsþjálfari geti haft samskipti við landsliðsþjálfara á móðurmáli þjálfarans eða á ensku.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal koma ábendingum áleiðis til stjórnar TKÍ ef illleysanleg samskiptavandamál koma upp í ferðinni, hvort þá sem er af hendi keppenda, aðstandenda, eða annarra ábyrgðaraðila s.s. fararstjóra eða landsliðsþjálfara. Einnig að sjá til þess að keppendur, gestir og starfsmenn TKÍ sem eru Íslandi eða TKÍ til ósóma, t.d. vegna ölvunar, áreitni, eineltis, óviðeigandi hegðunar, eða brota á grunngildum Taekwondo (kurteisi, virðing, heilindi, sjálfs-stjórn og þrautseigja) verði vísað frá mótsstað. Ef um gróft brot er að ræða þá ber aðstoðarlandsliðsþjálfari ábyrgð á að koma upplýsingum þar að lútandi til stjórnar TKÍ.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal bera alla ábyrgð á verkefnum fararstjóra ef enginn fararstjóri er með í fórum, ef fararstjóri forfallast eða reynist ekki fær um að standa undir ábyrgð sinni. Aðstoðarlandsliðsþjálfari skal undirbúa sig með því hugarfari, og skal því vera vel kunnugur ferðaskipulaginu og hvernig það hefur áhrif á keppendur.
 
Aðstoðarlandsliðsþjálfari á jafnan rétt á styrk á við keppendur. Ef stjórn TKÍ þykir ekki ástæða til þess að hafa fleiri en einni aðstoðarlandsliðsþjálfara í tiltekinni ferð, en Landsliðsnefnd býður þrátt fyrir það fleiri en einum að fara með, þá skal styrkupphæð eins keppanda skiptast jafnt á milli aðstoðarlandsliðsþjálfara. Ef aðstoðarlandsliðsþjálfari er launaður starfsmaður TKÍ þá skal ferð hans greidd að fullu samkvæmt starfssamningi.