Stytta af hermanni Kumgang í helli Sokkuram

Taekwondo á rætur að rekja til fólksins sem byggði Kóreu skagann. Hann var heimkynni margra kynslóða fólks sem lifði af jörðinni í nánu sambandi við náttúruna. Sagan segir að upprunalegi forfaðirinn Tangun hafi stofnað Kóreanska ríkið, eða Gömlu Kóreu, árið 2.333 f. Kr. í Asdal. Tangun ríkið var til frá stofnun til 1.122 f.Kr. þegar Kaja ríkið tók við. Árið 193 f. Kr. breyttist Kaja ríkið í Wimwam ríkið sem entist aðeins til ársins 108 f. Kr. þegar því var skipt í þrjú konungsríki. Í þessum konungsdæmum voru haldnar hátíðar og miklar samkomur þegar fólk tilbað guði sína með því að dansa, spila tónlist og keppa í íþróttum…ekki ólíkt íslenskum hefðum til forna.
Þegar íþróttakeppni var haldin getum við ímyndað okkur að keppnin hafi falið í sér bogfimi, spjótakast og einhverskonar einvígi sem til eru í mörgum menningarsamfélögum í einu eða öðru formi sbr. glíma, hnefaleikar, skylmingar og að sjálfsögðu Judo og Karate o.s.frv. Ein skemmtileg kenning um uppruna Taekwondo er að háu spörkin sem nútíma iðkendur framkvæma hafi þróast þegar Kóreumenn voru neyddir til að verja sig gegn innrásum óvina á hestabakki. Stökkspörk og önnur há, kröftug spörk kynnu að fella reiðmanninn af hesti sínum og jafna þannig leikinn. Meðal mikilvægustu hátíðanna voru Yongko í Puyo ríkinu, Tongmaeng í Koguryo ríkinu, Muchon í Yeh ríkinu og Mahan og Kabi í Sillu konungsríkinu.

Rannsóknamenn og sagnfræðingar tala um lífstíl kóreanska fólksins sem sambland af bóndamenningu, veiðimannamenningu og verndarlífstíl. Kórea er fjallmikið land með skóga og villidýr eins og tígrisdýr og birni. Umhverfi fólksins endurspeglast í Taekwondo heitum sem notuð er í dag sbr: Jechum seogi = Staða hests; Beom seogi = Staða tígrisdýrs; Eotgeoro Makki = Blokk í Fjallsstöðunni; Haktari Seogi = Staða krana; o.fl.. Silla þjóðin er elst konungsríkjanna. Hún bjó á suðaustur horni Kóreu og varð til árið 57 f. Kr. Höfuðborgin hét Kyongju og þar er að finna tvær lágmyndir af Keumgan Yoska hermönnum í Taekwondo stöðum. Stytturnar eru í Pulkuksa bænahúsi búdda munka í Sokkuram hverfi Kyongju. Stöður hermananna eru sagðar líkjast hreyfingum í Poomse munstrinu Keumgan. En Silla er best þekkt, hvað okkur varðar, vegna Hwarang-Do „Blómariddaranna“. Hwarangirnir voru ungir menn af aðalstétt sem þjálfuðu líkamann, sálina og hugann í þeim tilgangi að verja konungsríkið innrásum nágrannaríkja. Þeir lifðu eftir ströngum reglum um að sýna konunginum virðingu, og að vera hugrakkir í bardögum, bera virðingu fyrir lífinu og þar afleiðandi að taka ekki líf annarra nema brýnasta nauðsyn krefði. Þeir sýndu vinum sínum traust og drengskap.

Mót af höndum Kumgang stríðsmanns í bardagastellingu.

Fornleifar gefa okkur innsýn í Koguryo konungsríkið sem var stofnað árið 37 f. Kr. Sumir vísa til veggmynda sem vísbendingu um að Taekwondo eigi sér upprunni í Koguryo. Eitt dæmi eru grafir konunga í Muyong-chong og Kakchu-chong sem er að finna í Norðaustur Kína í Tunghua sýslunni sem er í Mansjúríu. Þá var Hwangdo höfuðborg Koguryo. Japanskir fornleifafræðingar fundu grafirnar árið 1935. Í kringum Muyong-chong gröfina er mynd í loftinu af tveimur mönnum í Taekwondo bardagstellingum og nokkrum konum að dansa. Maðurinn til vinstri ver sig og andstæðingurinn er að undirbúa gagnárás. Japanskur sagnfræðingur skrifaði um myndina í bókinni Study of Culture in Ancient Korea. Hann sagði að myndin benti til þess að Taekwondo hafi verið mjög mikilvægur hlutur af lífi konungsins sem liggur í gröfinni. Þess vegna var Taekwondo mynd máluð hjá gröfinni. Þetta þýðir að Taekwondo var afar vinsælt á þeim tímum þar sem það var nógu vinsælt konungs til huggunar í gröfinni. Myndirnar eru taldar vera frá árunum 3. ári f.Kr. og 47. ári e.Kr. og vilja sumir því meina að Koguryo ríkið sé upprunastaður Taekwondo. Aðrir telja að Taekwondo hafi byrjað með Hwarang-do riddurunum í Sillu konungsríkinu. Þriðja konungsríkið, Baekje, var á suðvestur horni skagans frá árinu 18 f.Kr. Ríkið átti í miklu viðskiptum við Kína og Japan. Konungar ríkisins studdu baráttulistina og hvöttu fólkið sitt til að stunda allskonar íþróttir. Úr fornritum frá Baekje vitum við að það voru fjórar aðaltegundir bardagalistar stundaðar þar: Taekyon, Kwon Bob, Kwon Sul og Kak Sul.

Árið 668 var Silla ríkið orðið langsterkast á skaganum og sama ár réðst Silla inn í Baekje og var hið síðarnefnda þar með innlimað í Sillu ríkið. Koguryo konungsríkið féll árið 670 fyrir Sillu og skaginn var þar með orðin að einu ríki. Í þessu nýja ríki, sem hefur verið kallað „Stóra Silla“, var Taekwondo alltaf vinsælt og það breyttist ekki þegar Stóra Silla varð að Koryo konungsríkinu árið 918. Það ber að nefna að Taekwondo er í rauninni nýjasta nafnið sem bardagalistin hefur borið. Á Koryo tímabilinu hét hún Subak. Tae Kyon er annað nafn fyrir Taekwondo sem þróaðist á annan hátt en nútíma Taekwondo.

Á tímum Koryo voru fyrstu Taekwondo bardagareglurnar búnar til. Iðkendur skiptu þúsundum í þessu ríki. Bardagalistin skipaði mikilvægan sess í her Koryo. Þeir sem voru duglegir og sigursælir í Taekwondo fengu stöðuhækkun. Það voru haldnar keppnir á hverju ári og sigurvegararnir fengu háar stöður í hernum.

Frá 1392 – 1910 var Koryo undir Yi Konungsríkinu frá Kína. Á þeim tíma breiddist Subak út meðal almennings. Einn af Yi konungunum, Chog-jo, gaf út bók um bardagalistir og stríð árið 1790. Í bókinni var einn af mikilvægustu köflunum um Subak. En á seinna skeiði ríkisins minnkaði áhugi aðalsins á íþróttinni. Þetta hafði áhrif á áhuga almennings á íþróttinni. Vopnasmíðakunnátta jókst mikið á þessum tíma og lagði aðallinn meiri áherslu á vopnasmíði en á vopnalausa bardagaþekkingu. Þetta er kannski skiljanlegt frá sjónarmiði sjálfstæðs ríkis sem leggur áherslu á að halda sínum landsvæðum frá innrás óvina.

Á þessari öld hefur margt gerst í þróun og útbreiðslu Taekwondo í heiminn. Kórea var hernumin af Japönum frá 1910 til 1945. Japanir bönnuðu Kóreumönnum að iðka Taekwondo, en þeir æfðu það samt í leyni. Japan tapaði seinni heimsstyrjöldinni og hernumdu Bandaríkin og Sovétríkin Kóreu. Þegar bandalagsmenn frelsuðu Kóreu voru fimm Taekwondo Kwan (fjölskyldur, stílar) áberandi:

1. Moo Duk Kwan hjá Hwang Kee í Seoul
2. Chung Ko Kwan hjá Won Kuk Lee í Seoul
3. Yon Mo Kwan hjá Chun Sang Sup í Seoul
4. YMCA Kwon Pup hjá Pyon In Yun í Seoul
5. Song Moo Kwan hjá No Byong Jik í Kai Sung.

Árið 1948 var Kóreu skipt í tvennt. Á árunum 1945 til 1953 ferðuðust 5 stórmeistarar um Kóreu og kenndu Subak. Á þeim tíma stofnuðu þeir 40 Kwan. Eftir 1953 voru eftirfarandi aðalkwan staðfest:

1. Moo Duk Kwan hjá Hwang Kee í Seoul
2. Ji Do Kwan hjá Yun Kwei Byong í Seoul
3. Chung Do Kwan hjá Son Dokk Song í Yuon Yong Kyuu
4. Chang Moo Kwan hjá Lee Nam Sak í Seoul
5. Song Moo Kwan hjá No Byong Jik í Seoul

Kóreu stríðið braust út árið 1950 og síðan hefur Norður Kóreu einangrast smátt og smátt. Það er líklegt að önnur lönd sem voru undir stjórn kommúnista hafi átt í menningarsamskiptum við Norður Kóreu og þar með kynni Taekwondo að hafa breiðst út í viðkomandi löndum. Það Taekwondo sem við iðkum í dag er ættað frá suður hluta skagans.

Brons stytta af hermanni Kumgang

Stórmeistararnir ákváðu að gefa íþróttinni eitt nafn: Tae Kwon, árið 1955. Fjórum árum seinna fékk íþróttin það nafn sem hún ber í dag, Taekwondo að tilmælum forseta Kóreu. The Korean Taekwondo Association var stofnað árið 1961 og tveimur árum seinna var þetta samband aðili að Íþróttasambandi Kóreu. Sama ár var fyrsta Kóreumeistaramótið haldið. Bardagalistin var útnefnd þjóðaríþrótt árið 1971 og árið á eftir var Kukkikwon byggingin reist. Kukkikwon er keppnishöll og miðstöð Taekwondo. The World Taekwondo Federation var stofnað árið 1973 með Dr. Un Young Kim sem formann. Fyrsta Heimsmeistarakeppnin var haldin í Seoul sama ár og tóku 16 þjóðir þátt í henni. Kwanin voru lögð niður opinberlega árið 1976. Samt eru gömlu Kwan nöfnin ennþá í notkun í dag. Taekwondo kom til Evrópu á seinni hluta sjöunda áratugsins. Danir kynntust Taekwondo árið 1968 og var 6. Heimsmeistaramótið í Taekwondo haldið í Kaupmannahöfn árið 1983. Þegar Taekwondo varð aðili að Alþjóðlegu Ólympíunefndinni árið 1981 var það stórt skref í þá átt að viðurkenna Taekwondo í heiminum. Ólympíuleikarnir voru haldnir í Seoul árið 1988 og Taekwondo var þá sýningaríþrótt. Taekwondo fékk viðurkenningu frá I.C.S. nefndinni árið 1981 fyrir góð áhrif á sálarlíf iðkenda, barna jafn sem fullorðinna.

Þess ber að geta það að WTF er ekki eina Taekwondo sambandið í heiminum. Árið 1955 stofnaði Choi Hong Hee The International Taekwondo Federation (ITF) og hófst þannig handa við að breiða út sinn stíl af Taekwondo um veröldina. Vegna pólitískra ástæðna var Choi Hong Hee vísað úr landi 1968. Hann settist að í Kanada og ITF er sérstaklega sterkt vestanhafs, þó að mörg félög þrífist víða annars staðar. Master Park Jung Tae var í ITF en vegna deilna um stefnu ITF ákvað hann að stofna The Global Taekwondo Federation (GTF) árið 1990. GTF er útbreitt í Evrópu og er þekkt fyrir að vera vel skipulagt félag. Þessir stílar WTF, ITF og GTF eru að mörgu leyti ólíkir. Munstrin, beltakerfin, nafnakerfin, æfingarstíllinn, keppnisreglurnar, og að nokkru leyti heimspeki stílanna eru að mörgu leyti ólík. Þeir eiga það þó sameiginlegt að vera ættaðir frá Kóreu og vera sjálfsvarnar- og bardagalistir byggðar á spörkum. Við verðum að bera virðingu fyrir hinum stílunum, rétt eins og við eigum að bera virðingu fyrir öðruvísi menningu og trúarbrögðum. Það er ekki hægt að segja að einn stíll sé betri en hinir. Þeir eiga hver fyrir sig sínar sterku og veiku hliðar.

© Texti: Sigrún Anna Qvindesland