Form eða poomse á kóresku er röð varnarhreyfinga og árása sem gerð er á móti ímynduðum andstæðingi eftir ákveðnu mynstri. Með því að æfa ákveðin form, læra taekwondo nemendur hvernig megi beita hinum ýmsu tegundum taekwondo. Form gegna margvíslegum hlutverkum, meðal annars við þróun og fágun samhæfingar, jafnvægi, tímasetningu, öndun og hrynjanda, en þetta eru allt nauðsynlegir eiginleikar til að geta stundað taekwondo. Á kóresku er Taeguk nefnt sem sameining sem skýrir hugtakið Tae-guk. Öll átta tae-guk formin eða mynstrin eru kölluð Palgwe, eða t.d. Taeguk/Palgwe Il Jang, sem er fyrsta formið.

Í taekwondo eru átta form sem byggð eru á átta Kwe grunnmynstrum, ef tekin eru tvö skref, eða gerðar eru tvær aðgerðir, hefur heil lína verið mynduð en ef eitt skref er tekið er búið að brjóta línuna. Ekkert form hefur því sama munstur.

Taekwondo-ti kerfið, eða beltakerfi taekwondo, byrjar á 9-geup og endar í 9-dan. Níu er summa hina fimm þátta, himinhvolfsins jarðarinnar, jin og jang. Geup kerfið í taekwondo fer úr 9 í 1, en dan-kerfið upp frá 1 upp í 9. Það er ekki að ástæðulausu að formin byrji og endi á tölunni 9, talan 9 er hæsta talan í tugakerfinu og er því ekki hægt að komast lengra eða hærra.

Þetta kerfi grundvallast á hinum austræna skilningi að allt líf komi af himnum ofan og rísi aftur upp eftir lífið á jörðinni til uppruna síns. Taekwondo kerfið er hinsvegar hannað eftir grundvallarkerfinu Ohaeng. Þeir sem það stunda geta öðlast innri ki (orku) með því að safna og útdeila orku innan líkamans.

© Texti: Írunn Ketilsdóttir