Alheimsáttirnar fjórar

Á kóreska fánanum eru fjögur þrílínumynstur og heita á kóresku „Kwe” sem táknar andstæður, jafnvægi, hreyfingu og samræmingu. Þrílínurnar eru ýmist samsettar af heilum línum eða brotnum línum sem tákna andstæðu en þó samverkandi öfl. Jin er táknað með brotinni línu og jang með óbrotinni línu. Kwe hefur fjögur grunn mynstur sem fáninn ber, þar sem;

Kun hefur þrjár óbrotnar línur og merkir himinn,
Yi hefur tvær óbrotnar línur og eina brotna og merkir eld,
Kam hefur eina óbrotna línu og tvær brotnar og merkir vatn og
Kon þar sem allar línur eru brotnar og merkir jörðin.

Til forna voru mynstrin notuð við spádómsathafnir, þar sem spákerfi jin og jangs byggist á samsetningu þessara átta þrílína. Þrílínunum er raðað í tvenndir í öllum hugsanlegum samsetningum og mynda alls 64 sexlínur. Talið er að þessar sexlínur tákni allar mögulegar aðstæður og umskipti í alheimi sem er stöðugt að breytast.

Hvert mynstur táknar mismunandi hreyfingu. Þar sem hver lína getur annað hvort verið brotin eða óbrotin er hægt að mynda átta mynstur út frá þremur línum, tveir í þriðja veldi gera átta mismunandi samsetningar. Ef tvö þrílínumynstur eru notuð saman (samtals sex línur) er hægt að mynda 64 mismunandi samsetningar, þ.a. því feiri línur sem notaðar eru því feiri samsetningar af Kwe er hægt að mynda.

Einnig merkja þrílínumynstrin áttirnar fjórar (austur, vestur, suður og norður), eða fjögur svið, og jin og jang merkja miðjuna. Miðjan er átt eða „hér” sem jafnframt er talin fela í sér lóðréttu stefnurnar tvær, „upp og niður”. Þannig eru víddir alheimsins alls sex að tölu. Auk áttanna eru frumöflin (eða náttúruöflin) fimm; eldur, viður, málmur, vatn og mold (jörðin) sem eru grundvallarkraftar sem vinna saman. Höfuðáttirnar fjórar eru tengdar náttúruöflunum fjórum; austur eldinum, vestur vatninu, suður loftinu og norður jörðinni, (sjá nánar á mynd). Eldur og viður eru jang og málmur og vatn eru jin, jörðin er hlutlaus. Frumefnin fjögur og áttirnar fjórar mynda svo 360 gráðu hring þar sem hringrásin er endalaus. Meðal frumaflanna og áttanna eru
guðir, dýr, tölur, plánetur, árstíðir og litir.

Einnig segir spekin að jin sé tunglið og jang sé sólin. Jörðin sé jin og skýin jang. Nóttin sé jin og dagurinn jang, veturinn jin og sumarið jang. Í raun eru jin og jang skyld eða tengd, þess vegna má segja að A sé jin m.t.t. B og þ.a.l. getur A verið jang m.t.t. C. Vorið getur verið jin m.t.t. sumarsins og einnig getur jang verið vetur m.t.t. haustsins.

Mynd. Útskýringar á þrílínumynstrunum átta.

© Texti: Írunn Ketilsdóttir