Góður árangur tæknilandsliðs á online mótum

By:

Tæknilandsliðið hefur ekki setið auðum höndum þrátt fyrir að keppnir sem hefðu átt að fara fram hafi allar verið felldar niður vegna Covid-19.  Á undanförnum vikum hefur landsliðsfólkið okkar keppt á fjórum online mótum þar sem fyrirkomulagið er þannig að keppendur senda inn upptökur af keppnisformum sínum og þeim upptökum er svo streymt á keppnisdegi og dómarar dæma formin jafn óðum líkt og verið hefði á venjulegu móti. 

Fyrsta mótið var haldið 4. – 10. maí, First Online Daedo Open European Poomsae Championship en það var fyrsta online mótið sem haldið er í heiminum og var eingöngu opið svartbeltingum.  Keppendur allsstaðar að voru greinilega orðnir hungraðir að fá að keppa og á mótið skráðu sig yfir 1.200 manns hvaðanæva úr heiminum og flokkarnir voru því bæði stórir og erfiðir og ekki óalgengt að yfir 100 keppendur væru í hverjum flokk.  Þetta mót tók heila 6 daga í beinu streymi á netinu. Á því móti átti Ísland 10 keppendur sem allir stóðu sig með prýði en enginn komst þó í verðlaunasæti.  Þeir sem kepptu voru Hákon Jan Norðfjörð, Eyþór Atli Reynisson, Álfdís Freyja Hansdóttir, Þorsteinn Ragnar Guðnason, Ásthildur Emma Ingileifardóttir, Ibtisam El Bouazzati, Steinunn Selma Jónsdóttir, María Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Pétur Arnar Kristinsson og Iðunn Anna Eyjólfsdóttir.  Álfdís, Þorsteinn, Eyþór og Hákon komust öll i undarúrslit í sínum flokkum.

Næsta mót var First Torneio Online Poomsae 2020 í Portúgal 13. – 14. júní síðastliðinn en íslenska liðinu var boðið sérstaklega að taka þátt í því móti.  Fjórir keppendur tóku þátt, þau Ásthildur Emma Ingileifardóttir, Benedikta Valgerður Jónsdóttir, Guðmundur Flóki Sigurjónsson og Eyþór Atli Reynisson en hann endaði með bronsverðlaun fyrir 4. sæti í sínum flokki.

Þriðja mótið var Online Kwon Open Tournament en það mót var eingöngu fyrir lituð belti. Því var skipt á tvær helgar, annars vegar 20-21. júní og hins vegar 27.-28. júní.  Á því móti átti Ísland 9 keppendur en það voru þau Aþena Kolbeins, Pétur Valur Thors, Þór Chang Hlésson, Guðmundur Flóki Sigurjónsson, Regína Bergmann Guðmundsdóttir, Eir Chang Hlésdóttir, Snorri Esekíel Jóhannesson, Orri Þór Eggertsson og Egill Kári Gunnarson.  Þrír komust áfram í úrslitaumferð, þeir Orri Þór sem náði 3. sæti, Egill Kári í 4. sæti og Snorri Esekíel í 6. sæti. en þeir keppa allir í sama flokki.

Nú um síðustu helgi var svo fjórða mótið haldið, Virtual Range Open Poomsae Competition þann 3. – 5. júli en það mót var opið öllum og átti Ísland hvorki meira né minna en 15 keppendur.  Pétur Valur Thors, Ásthildur Emma Ingileifardóttir, Eyþór Atli Reynisson, Álfdís Freyja Hansdóttir, Benedikta V. Jónsdóttir, Orri Þór Eggertsson, Eir Chang Hlésdóttir, Þór Chang Hlésson, Rán Chang Hlésdóttir, Milan Chang, Hulda Dagmar Magnúsdóttir, Aþena Rán Stefánsdóttir, Pétur Arnar Kristinsson, Guðmundur Flóki Sigurjónsson, Aþena Kolbeins.  Að vanda stóðu okkar keppendur sig mjög vel og áttum við eftirfarandi keppendur í verðlaunasætum:  Aþena Kolbeins – gullverðlaun, Orri Þór Eggertsson – silfurverðlaun og Rán Chang Hlésdóttir – bronsverðlaun.

Við óskum landsliðsfólkinu okkar til hamingju með góðan árangur á undanförnum mótum og hlökkum til að fylgjast með liðinu halda áfram að vaxa og dafna undir stjórn Lisu Lents.

Myndir:  Tryggvi Rúnarsson / Lents Taekwondo

Frá landsliðsæfingu síðustu helgi

Frá landsliðsæfingu síðust helgi

Alltaf fjör þar sem þessi hópur kemur saman

Aþena Kolbeins vann til gullverðlauna á Virtual Range Open

Orri Þor Eggertsson vann til silfurverðlauna á Virtual Range Open og auk þess til bronsverðlauna á Online Kwon Open.

Rán Chang Hlésdóttir vann til bronsverðlauna á Virtual Range Open

Egill Kári Gunnarsson vann til bronsverðlauna á Online Kwon Open

Eyþór Atli Reynisson vann til bronsverðlauna á First Torneio Online