Brons á Scandinavian Open

By:

Fimm keppendur kepptu í tækni fyrir Íslands hönd á Scandinavian Open í Danmörku síðastliðinn sunnudag. Þrír keppendur kepptu í Senior I kvenna, þær Sigríður Hlynsdóttir, Sandra Mjöll Jónsdóttir og Hulda Rún Jónsdóttir. Tveir keppendur kepptu svo í Senior II karla, þeir Karl Jóhann Garðarsson og Jakob Antonsson. Að auki kepptu Sandra og Karl saman í mix pair og Sandra, Sigríður og Hulda saman í synkron.

Ljóst var, þegar nýr landsliðsþjálfari tók við taumum liðsins í febrúar að mikillar uppbyggingar var þörf. Íslendingar hafa verið að keppa í allt öðrum stíl en aðrar þjóðir um árabil. Æfingar núverandi landsliðs hafa miðað að því að meðlimir skuli tileinka sér nýrri keppnisstíl ásamt því að æfa markvisst para- og hópapoomsae.

Liðið hélt á Scandinavian Open í Horsens með smá æfingastoppi í Kaupmannahöfn með það að markmiði að fá samkeppnishæf stig. Því markmiði var náð og gott betur því Karl Jóhann Garðarsson fékk 3. sæti í sínum flokki.

Dæmt er eftir WTF kerfi sem byggist upp á 10 stigum. 5 stig fyrir tækni og 5 stig fyrir framkomu. Fyrir framkomu var íslenska liðið að fá svipuð stig og aðrir keppendur en það er í tæknihlutanum sem liðið tapar stigum. Liðið er þó ekki með lélegri tækni heldur en hinir heldur er hún einungis töluvert öðruvísi.

Haldi liðið áfram á sömu braut þá er ekki ólíklegt að innan nokkurra ára verði Ísland búið að byggja upp gott samkeppnishæft landslið sem gefur hinum norðurlandaþjóðunum ekkert eftir.

Við óskum poomsaelandsliðinu kærlega til hamingju með gott gengi.