Tvö gull og maður mótsins á Wonderful Copenhagen mótinu

By:
Tveir keppendur í Taekwondo, þeir Björn Þorleifur Þorleifsson og Meisam Rafiei, tóku þátt í æfingabúðum með danska landsliðinu í sparring. Eftir æfingabúðirnar kepptu þeir á sterku opnu móti í Kaupmannahöfn og náðu þeir þeim frábæra árangri að vinna báðir til gullverðlauna í sínum flokkum, auk þess sem Björn var valinn keppandi mótsins fyrir frábæra frammistöðu í sínum viðureignum. Mótið heitir „Wonderful Copenhagen“ og voru allir sterkustu keppendur Norðurlandanna á mótinu ásamt keppendum frá öðrum löndum.

Margir af keppendunum á mótinu notuðu mótið sem lið í undirbúningi fyrir Evrópu-úrtökumótið í Taekwondo fyrir Ólympíuleikana í London 2012 og var Björn einn af þeim. Úrtökumótið fer fram í Rússlandi í janúar og er það síðasti möguleiki til að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum 2012, en aðeins fjórir efstu í hverjum þyngdarflokki komast áfram.

Meisam, sem einnig er landsliðsþjálfari Íslands og yfirþjálfari Aftureldingar, telur Björn eiga ágæta möguleika á að komast áfram, og stefna þeir félagar á að keppa í 3-4 öðrum sterkum mótum áður en haldið verður til Rússlands. Meisam hefði einnig fullt erindi á úrtökumótið en hann er búsettur á Íslandi en ekki með íslenskan ríkisborgararétt og hefur því ekki keppnisrétt á Ólympíuleikum, alla vega ekki enn sem komið er.

Fleiri íslenskir keppendur stefna á úrtökumótið í Rússlandi og verður fróðlegt að fylgjast með þeim á næstu mánuðum.